miðvikudagur, 28. október 2015

Klopp: Hann getur labbað og synt en það hjálpar honum ekki í fótboltanum

Daniel Sturridge og Jürgen Klopp.
Daniel Sturridge og Jürgen Klopp. 
Framherjahallæri Liverpool heldur áfram því Christian Benteke er meiddur á hné og Jürgen Klopp er ekki bjartsýnn á það að Daniel Sturridge spili með í næstu tveimur leikjum Liverpool-liðsins. Liverpool mætir Bournemouth í kvöld og Chelsea á laugardaginn kemur.

Christian Benteke er þriðji framherjinn sem meiðist á stuttri stjóratíð Jürgen Klopp á Anfield en Benteke sem var nýkominn til baka eftir tognun aftan í læri meiddist á liðböndum í hné. Áður hafði Danny Ings slitið krossband og Sturridge bólgnað upp í hnénu.

Christian Benteke verður ekki með í enska deildabikarnum á móti Bournemouth í kvöld og það er ólíklegt að hann nái Chelsea-leiknum um helgina. Sömu sögu er að segja af Daniel Sturridge sem er líka meiddur á hné og hefur enn ekki spilað fyrir Klopp.

„Hann getu labbað og hann getur synt en það hjálpar honum ekki í fótboltanum. Það er vökvi í hnénu hans. Það er ekki mikið og þetta er ekki alvarlegt. Hann þarf ekki að fara í aðgerð en hann þarf tíma til að jafna sig," sagði Jürgen Klopp við Guardian um stöðuna á Daniel Sturridge.

„Ég lærði það þegar ég var yngri að það hjálpar ekkert að tala um leikmenn sem eru ekki í boði. Hann er nú að missa af fjórða leiknum í röð svo að þetta hafa verið 10 til 12 dagar. Hann verður líka að ná að æfa því það spilar enginn daginn eftir að hann kemur til baka," sagði Klopp og hélt áfram að ræða stöðu Daniel Sturridge.

„Ég þekki meiðslasögu hans en ég hef enga reynslu af því að vinna með honum. Það er annað sem ég þarf að læra," sagði Klopp. Daniel Sturridge hefur aðeins spilað 3 leiki með Liverpool á tímabilinu og skoraði tvö mörk í 3-2 sigri á Aston Villa.

Daniel Sturridge hefur ekki spilað síðan að hann lék 90 mínútur í 1-1 jafntefli á móti Everton sem var síðasti leikur liðsins undir stjórn Brendan Rodgers.

Christian Benteke, Danny Ings og Daniel Sturridge verða því ekki með Liverpool á móti Bournemouth í kvöld og Klopp þarf að treysta áfram á Divock Origi sem hefur enn ekki skorað þrátt fyir að hafa spilað 470 mínútur á þessari leiktíð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli