miðvikudagur, 9. desember 2015

Simmons sagt upp í Njarðvík

umfnthor15

"Óvíst hvernig leikmann við fáum okkur"


Njarðvíkingar hafa sagt upp Marquis Simmons erlendum leikmanni sínum og hefur hann nú þegar leikið sinn síðasta leik fyrir félagið. "Hann var einfaldlega ekki að standa undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar. En þetta er allt gert af fagmennsku og engin leiðindi. Hann skilur okkar afstöðu og mun halda af stað heim í dag eða á morgun." sagði Gunnar Örn Örlygsson formaður kkd. UMFN. 

Njarðvíkingar eru sem stendur í 6. sætii Dominosdeildarinnar með 5 sigra og 4 töp og hefur Marquis verið að skila 18 stigum og 11 fráköstum á leik fyrir þá grænklæddu. "Hann hefur já leikið sinn síðasta leik. Við töldum það réttast að gera þetta svona frekar en að láta hann klára til jóla. Það sýnir fagmennsku af okkar hálfu og einnig tel ég með fullri virðingu fyrir honum að aðrir leikmenn eigi að getað fyllt það skarð sem hann skilur. Hann er einfaldlega ekki að henta okkur og okkar prógrammi." sagði Gunnar ennfremur. 

Ræðst í "glugganum" hvernig leikmann Njarðvík tekur.
Gunnar sagði Njarðvíkinga nú byrja að leita af eftirmanni Simmons en óvíst væri hvernig sú leit yrði. "Við viljum bæta við okkur íslenskum bakverði, það er ekkert leyndarmál.  Ef það er bakvörður til sem langar að spila fyrir klúbbinn og hentar okkur, þá fáum við okkur stóran erlendan leikmann í teiginn aftur.  Ef það gengur hinsvegar ekki upp þá gæti farið svo að við yrðum að næla okkur í bakvörð erlendis frá." sagði Gunnar að lokum. 

Njarðvíkingar eiga tvo leiki eftir til jóla og það er gegn Haukum og Grindavík. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli